Sunnudagur 24. september 2017

myndir1-1

postur1-1

Mentor

outlook1-1

Leikhús ævintýranna í grenndarskógi Rimaskóla

Nemendur 6. bekkjar Rimaskóla sýndu snilldartakta í leiklist þegar þeir settu upp leiksýningu á ævintýrum H.C. Andersen í grenndarskógi skólans. Skógurinn okkar er í landi Brekku innst í Grafarvogi. Leikritið nefnist Klaufar og kóngsdætur, þrjú bestu ævintýri danska ævintýraskáldsins; Eldfærin, Svínahirðirinn og Hans klaufi. Leikhúsið í skóginum er mikill ævintýraheimur þar sem rjóðrin reynast hentug og rúmgóð leiksvið. Skrautlegir búningar og myndræn sviðsmynd setur sterkan svip á verkið og nemendur skólans kunnu vel að meta þegar þeim er boðið í skóginn. Sýningarnar tvær tókust mjög vel þrátt fyrir að vindurinn léki hátt á greinar trjánna að þessu sinni. Þetta er áttunda árið í röð sem að nemendur 6. bekkjar setja upp leiksýningu í skóginum að vori og er þetta því orðin ómissandi hefð í lok skólaárs. Leikstjóri að þessu sinni var Agnar Jón Egilsson leikhússtjóri Leynileikhússins með dyggri aðstoð Jónínu Margrétar búningahönnuðar, Halla smíðakennara og leiksviðsmeistara og umsjónarkennaranna Eyglóar og Írisar. Mikill leiksigur allra þeirra sem komu að sýningunni. (HÁ)

Prenta | Netfang

Hafsteinn hlaut nemendaverðlaun SFS 2017

Nemendaverðlaun Skóla-og frístundasviðs Reykjavíkur 2017 voru afhent við hátíðlega athöfn í Laugalækjarskóla 29. maí. Markmið nemendaverðlaunanna er að hvetja nemendur til að leggja sig enn betur fram í námi, félagsstarfi eða í skapandi starfi. Hver grunnskóli tilnefnir einn nemanda til þessara verðlauna og að þessu sinni var það Hafsteinn Zimsen í 10-IG sem tók við verðlaununum úr hendi Skúla Helgasonar formanns SFS. Hafsteinn er vel að verðlaununum kominn því hann er samviskusamur, vandvirkur og kurteis í alla staði. „ Öll þau verkefni sem hann leysir af hendi innan og utan skóla eru vel af hendi leyst. Hann er mikill fyrirmyndarnemandi og vel liðinn af bekkjarfélögum, hlustar á röksemdir og hefur auk þess alltaf eitthvað gott til málanna að leggja“ segir m.a. í umsögn skólastjóra og umsjónarkennara 10. bekkjar. Rimaskóli óskar Hafsteini til hamingju með glæsileg verðlaun. (HÁ)

Prenta | Netfang

Hundaólin Hljóð-ól komst í úrslitakeppni NKG

Þær Viktoría Ír Arnarsdóttir og Guðrún Harpa Kjartansdóttir nemendur í 7-IK áttu eina af þeim 25 hugmyndum sem valdar voru úr hópi 1100 hugmynda í áframhaldandi vinnusmiðju Nýsköunarkeppni grunnskólanna 2017. Vinnusmiðjan var haldin dagana 18. – 21. maí. Hljóð – ól heitir nýsköpunartillaga þeirra bekkjarsystra. Fyrir þennan heiður og snjöllu hugmynd fengu stelpurnar afhent viðurkenningarskjal. Hljóð – ól er ætluð hundaeigendum og hundum þeirra og nýtist vel ef svo illa fer að hundurinn týnist. Með þjálfun og GPS hátalara-appi er hægt að skynja hvar hundurinn er staddur og þegar hljóð sem hundurinn þekkir heyrist úr „hljóð-ólinni“ þá veit hundurinn að hann á að koma heim. Frábær hugmynd og velútfærð nýsköpun. Á myndinni má sjá þær Guðrúnu Hörpu og Viktoríu Ír með hljóð-ólina fínu og plakatið sem fylgdi með til útskýringar. Til hamingju stelpur. (HÁ)

Prenta | Netfang

Fleiri greinar...