Álftir og toppendur í 1. bekk höfðu margt skemmtilegt að flytja okkur áhorfendum sem fylgdumst með föstudagsfjöri hópsins. Þrátt fyrir að standa fyrir framan fullum sal áhorfenda var ekkert hik á þessum yngstu nemendum Rimaskóla heldur allt lagt í að gera sitt besta. Og það tókst. Dansinn Skólarapp og lagið um Krúsilíus komu öllum í gott skap. Nokkrir nemendur létu ljós sitt skína og léku á hljóðfæri. Lengsta atriði dagskrárinnar var að vekja upp alla stafakarlana og reyndust þeir misjafnlega tilbúnir að vakna. Virkilega skemmtileg dagskrá með þessum duglegu nemendum 1. bekkjar. (HÁ)
Nemendur 1. bekkjar stóðu sig aldeilis vel þegar þeir skemmtu á föstudagsfjöri skólans. Allir krakkarnir voru með jólasveinahúfur og flest þeirra líka í lopapeysu að hætti gömlu jólasveinanna. Auk þess að dansa og syngja af miklum krafti þá fóru krakkarnir með jólasveinavísur Jóhannesar út Kötlum og léku hvern jólasvein fyrir sig. Þessir skrýtnu sveinkar gerðu lukku eins og alltaf þegar þeir mæta í mannabyggðir. Þrír sex ára nemendur sýndu leikni sína í hljóðfæraleik og tóku að sjálfsögðu falleg jólalög. Langt, fjölbreytt og afar skemmtilegt föstudagsfjör hjá 1. bekk. (HÁ)
Föstudagsfjörið hjá nemendum og kennurum 1. bekkjar var frábær skemmtun fyrir alla sem horfðu á. Hátíðarsalur Rimaskóla var þéttsetinn áhorfendum, nemendum í 1. – 4. bekk, elstu nemendum frá Lyngheimum og glás af foreldrum og nánustu ættingjum. Dagskráin var fjölbreytt og bráðskemmtileg. Páskastemmning sveif yfir vötnum og lifandi „páskaungar“ dönsuðu og sungu skemmtileg lög eftir þau Önnu Pálínu og Aðalstein Ásberg við undirleik Rakelar Maríu. „Páskaungarnir“ höfðu æft Fugladansinn með Huldu danskennara og bættu hinum sívinsæla Skólarappsdansi við dagskrána. Rímatriðið sem krakkarnir fluttu var rosa fyndið. Umsjónarkennarar 1. bekkjar þær Halla, Hildur og Þuríður höfðu greinilega æft krakkana mjög vel. Þau töluðu hátt og skýrt og kunnu sínar rullur utanbókar. Eins og áður segir skemmtu allir sér mjög vel, bæði áhorfendur og flytjendur. Myndirnar tala sínu máli. (HÁ)
Rúmlega 20 jólasveinar mættu með fyrra fallinu á föstudagsfjör Rimaskóla og skemmtu nemendum og fjölmennum foreldrahóp með ýmsum kúnstum í dansi, söng og leik. Krakkarnir í 1. bekk komu vel undirbúin til leiks. Kennarar árgangsins, þær Halla, Hildur og Þuríður, voru greinilega búnar að æfa og skipuleggja atriðin í þaula og útkoman því stórskemmtileg. Nemendur fluttu okkur jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum og dönsuðu „Senn koma jólin“ og „Í skóginum stóð kofi einn“. Rakel María tónmenntakennari lék undir í jólalögunum sem við erum að syngja í skólanum og við áhorfendur fengum að heyra tvö glæsileg sýnishorn, lögin „Á jólunum er gleði og gaman“ og Það á að gefa börnum brauð“. Rimaskóli er fagurlega skreyttur í hólf og gólf í tilefni jólanna. Gleði og gaman jólasveinanna í 1. bekk juku enn frekar á jólaskapið. Það er gaman í Rimaskóla, ekki síst í desember. (HÁ)
© 2017 Rimaskóli | Rósarimi 11, 112 Reykjavík | Sími: 4117720 | rimaskoli@reykjavik.is