Sunnudagur 24. september 2017

myndir1-1

postur1-1

Mentor

outlook1-1

Fréttir frá 4. bekk

Skemmtilegir strákar í 4. bekk með föstudagsfjör

Það var svo sannarlega fjör í kringum alla strákana í 4. bekk sem sáu um föstudagsfjörið að þessu sinni. Þeir buðu upp á spaugilega tískusýningu þar sem starfsmenn Rimaskóla voru margir hverjir mættir á svið í skrautlegum fatnaði og með fyndinni kynningu. Ekki minnkaði galsinn þegar kom að spurningakeppninni þar sem keppendur fengu væna rjómaslettu framan í sig við hvert rangt svar. Sletturnar urðu ófáar. Strákarnir fóru saman með ljóð Tómasar Urð og grjót og sungu rútubílalagið Óbyggðaferð í framhaldinu. Áður höfðu þeir félagar Alexander Þór og Arnar Logi troðið upp með söng og þeir Ísar og Gabríel spilað á píanóið. Fullt af hæfileikaríkum og skemmtilegum drengjum í árgangnum. (HÁ)

Prenta | Netfang

Áhugi og kraftur í krökkunum í 4. bekk

Nemendur 4. bekkjar eru þessa dagana að ganga í hús í Rimahverfi með söfnunarbauka ABC barnahjálpar og taka með því þátt í árlegu söfnunarátaki barnahjálparinnar. Um er að ræða árlegt söfnunarátak og leitar ABC til grunnskólanna með ótrúlega góðum árangri sl. 20 ár. Krakkarnir í 4. bekk eru einstaklega áhugasamir um að láta gott af sér leiða og ganga 2 – 4 saman í hús og safna í baukana. Auk söfnunarbaukanna fá krakkarnir gefið buff merkt ABC barnahjálp sem þau bera á höfði þegar þau safna. (HÁ)

Prenta | Netfang

Þriðjudagsfjör hjá þriðja bekk

Nemendur Ingu Maríu í 3. bekk gerðu þá undantekningu á föstudagsfjöri að halda fjörið á þriðjudegi. Þetta var lengsta dagskráin sem nokkur bekkur hefur boðið upp á í vetur og stútfull af stuttum en skemmtilegum atriðum. Myndband sem bekkurinn gerði með aðstoð eldri bekkinga sýndi vel að krakkarnir í 3-IMF eru hressir og hugmyndaríkir. Fríkuð tískusýning fylgdi í kjölfar myndbandsins og áhorfendur sem fylltu salinn kunnu vel að meta og hlógu mikið. Tvö glæsileg dansatriði voru á dagskránni, brandarar og söngur. Nemendur 3. bekkjar sýndu að allra mati sínar bestu spari-og hæfileikahliðar. (HÁ)

Prenta | Netfang

Stendur sig vel í Karate

Hann Gabriel Sigurður Pálmason í 3-IMF hefur æft karate íþróttina frá því haustið 2014. Hann stundar íþróttina af kappi og því má segja um hann eins og flesta þá sem ná góðum árangri að „æfingin skapar meistarann“. Nýlega vann Gabriel þennan eignarbikar þegar hann lenti í fyrsta sæti á félagsmóti Fjölnis og Aftureldingar í flokki 9 ára og yngri. Til hamingju með árangurinn Gabriel. (HÁ)

Prenta | Netfang