Sunnudagur 24. september 2017

myndir1-1

postur1-1

Mentor

outlook1-1

Fréttir frá 6. bekk

Nemendur 6. bekkjar gáfu tóninn á grunnskólamótinu í frjálsum

Grunnskólamót Reykjavíkur í frjálsum hófst í Laugardalshöllinni með keppni á milli nemenda 6. bekkjar. Nemendur í 6. bekk Rimaskóla fjölmenntu á mótið og sýndu frábæra frammistöðu bæði í flokki stúlkna og drengja. Keppt er í fjórum greinum; kúluvarpi, langstökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi. Hvattir af kennurum, skólastjóra og foreldrum hlutu nemendur Rimaskóla langflestu stigin og gáfu tóninn fyrir framhaldið. Nemendur 7. bekkjar keppa í dag á mótinu og nemendur 8. og 9. bekk á morgun þriðjudag. Í fyrra vann skólinn grunnskólamótið í frjálsum í öllum árgöngum. Frammistaða 6. bekkjar sýnir að það er góður möguleiki á að endurtaka leikinn. (HÁ)

Prenta | Netfang

Leikhús ævintýranna í grenndarskógi Rimaskóla

Nemendur 6. bekkjar Rimaskóla sýndu snilldartakta í leiklist þegar þeir settu upp leiksýningu á ævintýrum H.C. Andersen í grenndarskógi skólans. Skógurinn okkar er í landi Brekku innst í Grafarvogi. Leikritið nefnist Klaufar og kóngsdætur, þrjú bestu ævintýri danska ævintýraskáldsins; Eldfærin, Svínahirðirinn og Hans klaufi. Leikhúsið í skóginum er mikill ævintýraheimur þar sem rjóðrin reynast hentug og rúmgóð leiksvið. Skrautlegir búningar og myndræn sviðsmynd setur sterkan svip á verkið og nemendur skólans kunnu vel að meta þegar þeim er boðið í skóginn. Sýningarnar tvær tókust mjög vel þrátt fyrir að vindurinn léki hátt á greinar trjánna að þessu sinni. Þetta er áttunda árið í röð sem að nemendur 6. bekkjar setja upp leiksýningu í skóginum að vori og er þetta því orðin ómissandi hefð í lok skólaárs. Leikstjóri að þessu sinni var Agnar Jón Egilsson leikhússtjóri Leynileikhússins með dyggri aðstoð Jónínu Margrétar búningahönnuðar, Halla smíðakennara og leiksviðsmeistara og umsjónarkennaranna Eyglóar og Írisar. Mikill leiksigur allra þeirra sem komu að sýningunni. (HÁ)

Prenta | Netfang

Joshua er skákmeistari Rimaskóla 2017

Joshua Davíðsson í 6-EH vann hið árlega skákmót Rimaskóla sem háð var í 24. skipti í hátíðarsal Rimaskóla. Flestir af bestu skákmönnum Rimaskóla tóku þátt í mótinu sem var bæði jafnt og spennandi. Joshua hlaut 5,5 vinninga af 6 mögulegum. Næst í röðinni með 5 vinninga voru þau Anton Breki Óskarsson og Bjarki Kröyer bekkjarbræður Joshua og hin unga og efnilega skákkona Eva Björg Jóhannesardóttir í 4-EDG. Líkt og fyrri árin þá er mikill skákáhugi í Rimaskóla og skólinn er svo heppinn að hafa upp á frábæran skákkennara að bjóða sem er Björn Ívar Karlsson frá Skákakademíu Reykjavíkur. Joshua Davíðsson er næstyngstur nemenda skólans til að hljóta þennan eftirsótta titil. Aðeins Hjörvar Steinn Grétarsson, yngsti stórmeistari Íslands, var yngri en Joshua sem skákmeistari Rimaskóla en hann var í 3. bekk þegar hann vann meistaratitilinn sem hann síðan endurtók sex sinnum á sínum Rimaskólaferli.

Prenta | Netfang

Dásamlegt ABBA –„show“ á föstudagsfjöri

Nemendur 6. bekkjar heilluðu áhorfendur á föstudagsfjöri bekkjarins með ABBA þema. Salurinn var sneisafullur af áhorfendum sem voru fljótir að setja sig inn í áhugaverða dagskrá. Nemendur kynntu ABBA,  þessa heimsfrægu sænsku hljómsveit sem vann Júróvision 1974 með laginu Waterloo. Allt frá þeirri stundu beið hljómsveitarinnar verskulduð heimsfrægð, því öll lögin þeirra urðu afar vinsæl og eru það ennþá 40 árum síðar. Krakkarnir sungu og spiluðu á hljóðfæri ABBA lagið Ég á mér draum og dönsuðu í glimmer og hippaklæðnaði 8. áratugs síðustu aldar fleiri ABBAlög. ABBA spurningaleikur var á dagskránni og þar kom foreldraliðið sterkt inn og sigraði leikinn nokkuð örugglega. Eftir flott fótboltamyndband lauk ABBA dagskránni með bekkjarsöng sem áhorfendum bauðst að taka undir. Salurinn söng hástöfum saman Mama Mia. (HÁ)

Prenta | Netfang